



BÓK EITT
BÓK TVÖ
BÓK ÞRJÚ
Benedikt búálfur. Útg. 1999
Dídí og Benedikt búálfur voru bestu vinir. Einn góðan veðurdag ákvað Benedikt að bjóða Dídí með sér í stutt ferðalag til Álfheima. En ekki datt honum í hug hvað byði þeirra. Dökkálfarnir voru komnir aftur á stjá og að venju boðaði það illt fyrir Álfheima.
Eldþursar í álögum. Útg. 2000
Einn sólríkan dag í Álfheimum rekast Benedikt búálfur og Daði dreki á eldþursinn Ara. Hann er víðsfjarri heimkynnum sínum á Eldey og hágrætur af söknuði eftir mömmu sinni. Félagarnir ákveða að fara með Ara heim til sín en sú för reynist ekki hættulaus. Eldþursar loga og kveikja í öllu sem þeir snerta og víðar er eldur laus.
Andinn í Miklaskógi. Útg. 2001
Aldrei er fallegra um að litast í Álfheimum en á sumarsólstöðum þegar litbrigði Sólfossa speglast í Fagravatni. Þá sjón vill Benedikt búálfur sýna Dídí vinkonu sinni úr mannheimum. En Dídí hefur um annað að hugsa, það er eins og jörðin hafi gleypt litla bróður hennar og Benedikt kemur eins og kallaður til að hjálpa henni að leita hans.
Sú leit snýst brátt upp í mikla ævintýraför á hættulegar slóðir í Álfheimum þar sem Benedikt, Dídí og Daði dreki
sýna öll mikinn hetjuskap.
Drekasögur. Útg. 2002
Þegar Arnar Þór er orðinn sex ára fær hann loksins að fara í langþráða ævintýraferð til Álfheima í fylgd Benedikts búálfs. Hann á von á að ferðin verði spennandi en órar ekki fyrir þeim hættum sem bíða hans. Daði dreki hefur verið kallaður heim í Gjána miklu, heimkynni drekanna, og Benedikt og Arnar Þór fylgja honum. Þar kemst Arnar Þór að því að til eru margs konar drekar og sumir eru mun ógnvænlegri en Daði.
Höfuðskepnur Álfheima. Útg. 2003
Á 153. afmælisdaginn sinn fær Benedikt búálfur gamla bók að gjöf. Þar er sagt frá hinum ægilegu höfuðskepnum Álfheima – Grjúpi, Ægi, Dæsingi og Surti – og hvernig megi vekja þær upp af löngum og djúpum svefni sínum. Benedikt hefur ekkert slíkt í hyggju enda myndi bardagi höfuðskepnanna án efa tortíma Álfheimum. En því miður eru til fleiri eintök af gömlu galdrabókinni og eitt þeirra er í höndum dökkálfanna.
Drottning drekanna. Útg. 2004
Á flugi sínu um skóginn rekast Benedikt, Dídí og Daði dreki á grátandi stúlku. Þau hafa ekki hugmynd um hver hún er – og það sem verra er, hún veit það ekki sjálf. Þau leita ráða hjá Magnúsi mikla, vitrasta álfi skógarins, sem leiðir þau á rétta braut – og sú er ævintýralegri en nokkurt þeirra hefði órað fyrir.
Svarta nornin. Útg. 2006
Þegar Benedikt búálfur rekst á dularfullan pakka í póstinum hjá Dídí ákveður hann strax að fara með hann til Álfheima og opna hann þar. En það sem leynist í pakkanum er hættulegra en Benedikt hafði grunað. Katla svarta galdranorn er komin aftur! Þeir einu sem geta bjargað Álfheimum eru vinirnir Ari eldþurs og Raggi dreki. En þeim líst alls ekki á blikuna.
Geta þeir, tveir litlir pjakkar, ráðið við svörtu nornina og bölvun hennar?
Drekagull. Útg. 2007
Benedikt búálfi líst ekki á blikuna þegar hann vaknar einn morgun og getur ekkert galdrað. En Benedikt deyr ekki ráðalaus og leggur upp í leiðangur til að endurheimta galdramáttinn. Vinur hans Daði dreki er með í för og úr verður æsispennandi ævintýri sem leiðir félagana á ókunnar slóðir.
Runni risi. Útg. 2012
Hér er saga um ungan Benedikt, áður en hann lærði sín fræði í búálfssetrinu við Sunnumörk. Illskeytt kvikindi úr hafdjúpunum ætla að legga undir sig jörðina og drekka sjálfum Álfheimum! Benedikt, ung álfastelpa með undarlega krafta og silalegur risi á villigötum - geta þau bjargað Álfheimum?
